22 September 2018 19:00
Guðlaug Edda endaði í 24. sæti á heimsbikarsmótaröðinni í Weihai, Kína núna í morgun. Keppt var í ólympískri þraut, sem samanstendur af 1500 metra sundi, 40 kílómetra hjóli og 10 kílómetra hlaupi. Tæplega 50 konur voru skráðar til leiks í þessari næst sterkustu þríþrautarseríu heims.
Guðlaug Edda byrjaði gríðarlega sterkt og var í fjórða sæti eftir sundið. Lítil mistök á skiptisvæðinu urðu til þess að Guðlaug missti af fremsta hóp, en náði þó þegar leið á að vinna sig aftur upp að fremstu konum. Um 30 konur voru saman í stórum hjólahóp, en á öðrum hring á hjólinu náðu 6 konur að brjóta sig frá hópnum. Þar á meðal voru Taylor Spivy, Bandaríkjunum og Miriam Garcia frá Spáni, en Miriam sigraði Evrópubikarsmótið í Malmö þar sem Guðlaug keppti fyrr í sumar. Þessar sex konur unnu sér inn rétt tæpar tvær mínútur á hjólaleggnum á næsta hóp þar sem Guðlaug Edda var.
Að hjólalegg loknum var komið að hlaupinu. Af þeim sex konum sem voru fremstar, hljóp engin betur en Taylor Spivy sem sigraði keppnina að lokum. Annamaria Mazzetti frá Ítalíu kom önnur og Miriam García þriðja.
Guðlaug átti góða skiptingu og byrjaði hlaupið mjög sterkt. Eftir fyrsta hring var Guðlaug á góðum stað en krampaði upp í lærunum, sem líklega orsakast út frá gríðarlega erfiðri hjólabraut. Þetta olli því að það hægðist aðeins á, en Guðlaug náði þó að klára síðasta hringinn sterkt og endaði sem áður sagði í 24 sæti. Góður árangur hjá Guðlaugu Eddu en fyrir keppnina var hún skráð í 35 sæti á styrkleikarlistanum.
Nánari úrslit eru hér.
Hákon Hrafn Sigurðsson