Orbea Þríþrautin Selfossi 2025

Orbea Þríþrautin Selfossi 2025

11 August 2025 11:52

Orbea Þríþrautin á Selfossi fór fram í blíðskaparveðri um helgina. 

Um er að ræða sprettþraut en vegalengdirnar í keppninni eru 750 metra sund í Sundhöll Selfoss, 18 km hjól um Selfoss og sveitirnar í nágrenni og svo 4,9 km hlaup á stígum bæjarins. 

Þetta er í þriðja skiptið sem keppnin fer fram og hefur þátttakendafjöldinn aukist ár frá ár. 

Í kvennaflokki var keppnin sérstaklega spennandi í ár. Þar voru fyrirfram sigurstranglegastar Brynja Dögg Sigurpálsdóttir (Ægir) nýbakaður Íslandsmeistari í Ólympískri þríþraut, Sara Árnadóttir (Ægir) Íslandsmeistari 2025 í Götuhjólreiðum og þríþrautarkona ársins árið 2023 og svo Hafdís Sigurðardóttir (UFA-Norðurljósin) Íslandsmeistari í tímatöku hjólreiðum og malarhjólreiðum 2025, auk þess sem hún er margfaldur Íslandsmeistari í hjólreiðum frá fyrri árum. 

Svo fór að Hafdís sigraði á tímanum 1:05:31 eftir mjög sterkt sund og hjól en Sara Árnadóttir varð önnur 53 sekúndum á eftir Hafdísi á besta hlaupatíma dagsins. Brynja Dögg varð svo þriðja en með árangrinum tryggði Brynja sér sigur í stigakeppni Þríþrautarsambandsins. Þess má geta að þetta var fyrsta þríþrautarkeppni Hafdísar.

Í karlaflokki sigraði Sigurður Örn Ragnarson Breiðabliki þriðja árið í röð á tímanum 53:27 annar varð Stefán Karla Sævarsson Breiðabliki á tímanum 57:38 og þriðji varð Ingvar Þór Bjarnason Ægi á 1:01:04.

Í opna flokkinum þar sem skráðir eru keppendur sem ekki eru í þríþrautarfélagi sigraði Birta Karen Petersen kvennaflokkinn, önnur varð Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir og þriðja varð Henný Dröfn Davíðsdóttir. Hjá körlum var það Búi Steinn Kárason sem sigraði annar varð Sólón Nói Sindrason og þriðji varð Ásmundur Gíslason.

Frekari úrslit má finna á:
https://timataka.net/sprettthraut-selfossi-2025/

Þríþrautarsambandið vill þakka, sjálfboðaliðum, styrktaraðilum, Sveitarfélaginu Árborg fyrir stuðninginn og keppendum fyrir frábæra keppni. 


Geir Ómarsson