
1 September 2025 12:11
Seinasta mót ársins, Íslandsmót 3N í ofursprettþraut, fór fram í Reykjanesbæ í blíðskaparveðri um helgina. Þátttakan var mjög góð, en 61 keppandi var skráður til leiks, sem er næst mesti fjöldi frá upphafi í þessu móti.
Í kvennaflokki sigraði Ólympíufarinn Guðlaug Edda Hannesdóttir úr Breiðabliki örugglega á tímanum 32 mínútur og 57 sekúndur. Hún var jafnframt fyrst allra keppenda, óháð kyni. Önnur varð Brynja Dögg Sigurpálsdóttir úr Ægi á tímanum 38:14 og þriðja varð Bjarkey Jónasdóttir, einnig úr Ægi, á tímanum 38:56.
Í karlaflokki sigraði Geir Ómarsson úr Ægi eftir harða keppni á tímanum 33 mínútur og 6 sekúndur. Annar varð Ingvar Þór Bjarnason úr Ægi á tímanum 34:06, en hann var jafnframt með hraðasta hjólatíma dagsins. Þriðji varð Kári Steinn Kjartansson, einnig úr Ægi, á tímanum 34:20. Kári átti jafnframt hraðasta sundtíma allra.
Í opna flokknum sigruðu þau Katrín Lilja Sigurðardóttir og Tomas Babjak. Í opna flokknum keppa þeir sem ekki eru skráðir í þríþrautarfélag.
Öll úrslit má finna á:
https://timataka.net/sprettthraut2025/
og
Geir Ómarsson
Síðast breytt þann 1. September 2025 kl: 12:12 af Geir Ómarsson