10 November 2025 11:52
Heimsmeistaramótið í ólympískri þríþraut fór fram í Wollongong í Ástralíu nýverið. Hörður Guðmundsson tók átt fyrir Íslands hönd en Hörður er búsettur í Launceston í Tasmaníu og því tiltölulega stutt fyrir hann að fara. En þetta er í þriðja skiptið sem að Hörður tekur þátt í heimsmeistaramótinu fyrir Íslands hönd.
Aðstæður voru nokkuð krefjandi í keppninni en töluverð alda var í sundinu sem hentaði Herði vel enda mjög sterkur sundmaður og kom Hörður sjöundi uppúr sundinu í sinum aldursflokki (50-54 ára). Hjólabrautin var þröng og krefjandi, þrír hringir með tveimur U-beygjum og tveimur tæknilegum köflum á hverjum hring. Hlaupið var einnig þrír hringir, með góðri brekku á hverjum hring og hitinn kominn í um 25°C undir lokin.
Hörður kláraði keppina á 2 tímum, 22 mínútum og 49 sekúndum og endaði í 28. sæti af 67 keppendum, glæsilega gert hjá Herði.
1500m sund: 22:14
40 km hjól: 01:09:00
10 km hlaup: 46:07
Mótið var einnig heimsmeistaramót í atvinnumannaflokki og urðu Lisa Tertsch frá Þýskalandi og Matthew Hauser frá Ástralíu heimsmeistarar en þau sigruðu einnig stigakeppnina í heimsbikarnum.
Heimsmeistaramótið 2026 mun fara fram dagana 23-27. september í borginni Pontevedra á Spáni.
Geir Ómarsson
Síðast breytt þann 10. November 2025 kl: 11:58 af Geir Ómarsson
