
31 July 2025 16:31
Íslandmótið í ólympískri þríþraut fór fram í frábæru veðri á Laugarvatni laugardaginn 5. júlí sl. Frábær skráning var í keppnina en 126 keppendur voru skráðir til leiks og 11 lið að auki og er það met skráning í þessa keppni.
Í keppni karla sigraði Sigurður Örn Ragnarsson nokkuð örugglega á tímanum 2:01:50 annar varð Stefán Karl Sævarsson á tímanum 2:10:50 og Arkadiusz Przybyla varð þriðji á 2:17:15, þeir koma allir úr Breiðabliki. Þetta er í áttunda skiptið í röð sem Sigurður verður Íslandsmeistari í greininni.
Í kvennaflokki sigraði Brynja Dögg Sigurpálsdóttir á tímanum 2:41:25, önnur varð Karen Axelsdóttir á 2:44:08 og þriðja varð Sonja Sif Jóhannsdóttir á tímanum 2:51.59, þær koma allar úr Ægi. Þetta er í fyrsta skiptið sem að Brynja tryggir sér Íslandsmeistaratitilinn en hún var önnur árið 2024.
Í opna flokkinum sigruðu þau Tindur Elíasen á tímanum 2:47:58 og Oddný Þóra Gunnarsdóttir á tímanum 3:11:06. Í opnum flokki keppa þau sem ekki eru skráð í þríþrautarfélag. Glæsilega gert hjá þessu unga þríþrautarfólki.
Þríþrautarsambandið þakkar þríþrautardeild Ægis og öllum þátttakendum fyrir glæsilega keppni og síðast en ekki síst öllum og sjálfboðaliðum sem gerðu það mögulegt að halda keppnina.
Geir Ómarsson