Íslandsmótið í ólympískri þríþraut

Íslandsmótið í ólympískri þríþraut

24 June 2018 16:00

Í dag fór fram Íslandsmeistaramót í ólympískri þríþraut á Laugarvatni en að mótinu stóð Þríþrautardeild Ægis.

Að öllu jöfnu felur ólympísk þríþraut í sér 1500 m sund, 40 km hjólreiðar og 10 km hlaup en í dag þurfti að stytta sundlegginn í 750 m af öryggisástæðum þar sem vatnið var einungis um 11 gráður og lofthitinn svipaður. Um 40 keppendur voru mættir til leiks að Laugarvatni og létu kaldar aðstæður ekki stoppa sig, en keppendur voru skikkaðir til þess að fara í peysu eða jakka á hjólaleggnum. Hjólaleiðin var breytt miðað við undanfarin ár þar sem keppendur hjóluðu 2 ferðir upp á Lyngdalsheiði í stað þess að hjóla í áttina að Svínavatni vegna framkvæmda á þeim vegi.
Í karlaflokki var hörð barátta um efstu sætin sem lauk þannig að Sigurður Örn Ragnarsson úr Umf. Breiðablik bar sigur úr býtum og er þetta þriðja þríþrautin í sumar sem Sigurður sigrar. Annar varð Rúnar Örn Ágústsson og Hákon Hrafn Sigurðsson kom þriðji í mark en þeir eru einnig úr Breiðabliki. Í kvennaflokki sigraði Rannveig Anna Guicharnaud úr Breiðabliki nokkuð örugglega og landaði þar með öðrum Íslandsmeistaratitli sínum í vikunni, en fyrir nokkrum dögum sigraði hún kvennaflokkinn á Íslandsmeistaramóti í tímatökuhjólreiðum. Önnur varð Þórunn Margrét Gunnarsdóttir úr Ægi eftir hörkubaráttu um silfrið við Katrínu Pálsdóttur úr 3SH sem kom þriðja í mark.


Hákon Hrafn Sigurðsson