Heimsmeistaramótið í Ironman 70.3

Heimsmeistaramótið í Ironman 70.3

13 November 2025 16:04

Heimsmeistaramótið í Ironman 70.3 eða hálfum járnmanni fór fram í Marbella á Spáni um helgina.

Alls tóku rúmlega sex þúsund keppendur frá yfir hundrað löndum þátt þar sem keppt var í 1,9 km sundi, 90 km hjóli og 21,1 km hlaupi. Keppnin byrjaði á krefjandi sundi þar sem talsverð alda setti strikið strax í upphafi. Því næst tók við mjög krefjandi hjólabraut með um 1700 metra hækkun, en hröðustu keppendur náðu 80–90 km/klst á leiðinni niður. Keppni lauk svo með hlaupaleið meðfram strandlengjunni í Marbella.

Ísland átti þrjá fulltrúa á mótinu en þær Sædís Jónsdóttir í flokki 30–34 ára, Ásta Parker 50–54 ára og Kristín Magnúsdóttir 65–69 ára tóku allar þátt í aldursflokkakeppni og stóðu sig vel við afar erfiðar aðstæður. Þær kláruðu allar krefjandi brautina af miklu harðfylgi.

Í einstaklingskeppni atvinnumanna sigruðu þau Lucy Charles-Barclay frá Bretlandi í kvennaflokki og Jelle Geens frá Belgíu í karlaflokki, en Jelle sigraði eftir afar spennandi endasprett við Norðmanninn Kristian Blummenfelt.


Geir Ómarsson