Ironman Kalmar og Köben

Ironman Kalmar og Köben

21 August 2025 13:05

Síðustu helgi fóru fram tvær Ironman-keppnir í Skandinavíu. Á laugardeginum var keppt í Kalmar í Svíþjóð og á sunnudeginum í Kaupmannahöfn. Eins og oft áður var nokkur hópur Íslendinga mættur til leiks.

Í Kalmar gerði Trausti Gunnarsson sér lítið fyrir og sigraði aldursflokkinn 65–69 ára með yfirburðum. Þar með vann hann sér sæti á heimsmeistaramótinu á Hawaii á næsta ári. Trausti synti 3.800 metra á 1:05:58, hjólaði 180 km á 5:16:24 og lauk svo keppninni með maraþonhlaupi á 4:05:55. Heildartími hans var því 10:38:11.

Í ár kynnti Ironman til sögunnar nýtt kerfi til úthlutunar sæta á heimsmeistaramótið sem byggir á svokölluðum aldurskvarða. Samkvæmt þeim útreikningum átti Trausti besta tímann af öllum, 8:01:58, sem er hreint út sagt ótrúlegur árangur.

Kristín Magnúsdóttir stóð sig einnig frábærlega og hlaut brons í aldursflokknum 65–69 ára. Hún synti á 1:28:21, hjólaði á 6:48:13 og hljóp maraþonið á 5:20:48. Samtals 13:52:34, eða 9:28:29 samkvæmt nýja aldurskvarðanum, sem er glæsilegur árangur.

Þess má geta að Kristín hefur staðið á verðlaunapalli í öllum þeim Ironman-keppnum sem hún hefur tekið þátt í.

Þríþrautarsambandið óskar þessu síunga íþróttafólki innilega til hamingju með frábæran árangur.


Geir Ómarsson

Síðast breytt þann 21. August 2025 kl: 16:44 af Geir Ómarsson