Guðlaug Edda 16. sæti í 1. heimsbikarmóti sumarsins í þríþraut

Guðlaug Edda 16. sæti í 1. heimsbikarmóti sumarsins í þríþraut

28 May 2022 10:00

Guðlaug Edda Hannesdóttir keppti í dag í heimsbikarnum  í þríþraut í Arzachena á Ítalíu. 

Um var að ræða sprettþraut (750m sjósund, 20km hjól og 5km hlaup). 55 þríþrautarkonur voru á ráslínunni og fyrirfram var Guðlaug Edda númer 47 eftir styrkleika. Guðlaug Edda synti mjög vel og kom með fyrstu stelpum úr sjónum. Í hjólinu myndaðist stór hópur fremst sem taldi 23 stelpur og nokkrar árásir voru gerðar en Guðlaug Edda hjólaði mjög skynsamlega og hélt sér í hópnum. Hlaupið gekk síðan mjög vel og hún endaði í 16. sæti, 65 sekúndum á eftir Söndru Dodet frá Frakklandi sem vann á tímanum 60 mínútur og 31 sekúnda. Julie Derron frá Sviss varð í 2. sæti og Luisa Baptista frá Brasilíu í 3. sæti. Þetta er næst besti árangur Guðlaugar Eddu í heimsbikarnum og keppnistímabilið hefur byrjað mjög vel hjá henni eftir erfið meiðsli á síðasta ári. Stigasöfnunartímabilið fyrir Ólympíuleikana í Frakklandi 2024 hófst í gær og heimsbikarinn í dag var því fyrsta mótið sem gefur stig fyrir úrtakslistann og árangurinn í dag tryggir henni góða stöðu á þeim lista. 


Hákon Hrafn Sigurðsson

Síðast breytt þann 28. May 2022 kl: 10:51 af Hákon Hrafn Sigurðsson