Guðlaug Edda í 25. sæti í heimsmeistaramótaröðinni í þríþraut

Guðlaug Edda í 25. sæti í heimsmeistaramótaröðinni í þríþraut

9 July 2022 07:00

Guðlaug Edda Hannesdóttir keppti í dag í heimsmeistaramótaröðinni  í þríþraut í Hamborg.

 Keppt var í sprettþraut (750m vatnasund, 20km hjól og 5km hlaup).  60 sterkustu þríþrautarkonur heims voru á ráslínunni og Guðlaugu var raðað númer 57. Hún startaði því yst á bryggjunni í sundinu en náði að vinna sig upp um 20 sæti í sundinu. Hjólabrautin var 3,5km hringur í miðborg Hamborgar og hann var hjólaður 6 sinnum. 15 konur hjóluðu saman fremst en Guðlaug Edda var í 2. hópi sem var um 30-40 sekúndum á eftir en hún var mjög spræk á hjólinu og dró hópinn oft áfram. Loft byrjaði hinsvegar að leka úr afturdekkinu þegar tæpir 10km voru eftir en hún náði að halda sér í hópnum og kláraði hjólið í 31. sæti. Þá tók við 2,5km hlaupahringur sem var hlaupinn tvisvar. Guðlaug vann sig upp um fjögur sæti á fyrri hringnum og bætti aðeins við í seinni hring og endaði í 25. sæti á tímanum 59 mínútur og 55 sekúndur. Þetta er besti árangur hennar í heimsmeistaramótaröðinni og til samanburðar þá varð hún í 49. sæti í sömu keppni fyrir tveimur árum. Hún fær rúmlega 100 stig á heimslistanum fyrir árangurinn í dag og tryggir góða stöðu á úrtakslistanum fyrir Ólympíuleikana 2024 og á góða möguleika á að keppa á heimsmeistaramótinu í haust. Sigurvegari varð Ólympíumeistarinn Flora Duffy á tímanum 58 mínútur og 37 sekúndur, Beth Potter varð önnur og Lisa Tertsch varð þriðja.  

Nánari úrslit hér https://triathlon.org/results/result/2022_world_triathlon_championship_series_hamburg/546858


Hákon Hrafn Sigurðsson

Síðast breytt þann 9. July 2022 kl: 14:10 af Hákon Hrafn Sigurðsson