Guðlaug Edda í 28. sæti í heimbikarnum

Guðlaug Edda í 28. sæti í heimbikarnum

24 July 2022 10:00

Guðlaug Edda Hannesdóttir keppti í dag í heimsbikarnum í þríþraut í Pontevedra á Spáni.

Keppt var í ólympískri vegalengd  (1500m vatnasund, 40km hjól og 10km hlaup).  59 þríþrautarkonur voru á ráslínunni og Guðlaugu var raðað númer 38 fyrir keppnina eftir styrkleika. Guðlaug ferðaðist frá Þýskalandi en fékk ekki farangur sinn þegar hún kom til Spánar á þriðjudaginn. Farangurstaskan hennar skilaði sér svo í gær en hinsvegar skilaði hjólið sér ekki. Hún fékk því lánshjól fyrir keppnina sem var ekki jafn gott og hennar hjól. Keppnin sjálf var líka viðburðarrík því það var mjög mikil barátta í sundinu og hún fékk mjög fast spark í andlitið í sundinu og sprungna vör. Hún tafðist aðeins í sundinu vegna þessa en náði að koma sér af stað í hjólinu í þriðja hópi. Hjólaðir voru 8 hringir innanbæjar með mikið af beyjum og farið fyrir samtals 224 hraðahindranir. Guðlaug Edda náði að vinna sig aðeins upp í hjólinu og hóf hlaupið í sæti númer 23. Hún hljóp 10km á 36:40 og gaf aðeins eftir og endaði í sæti númer 28 sem er samt sem áður frábær árangur og framar en henni var raðað fyrir keppni. Þessi úrslit skila henni einnig stigum á úrtökulistann fyrir ólympíuleikana 2024. Sigurvegari varð Petra Kurikova frá Tékklandi en þetta var fyrsti sigur hennar í heimsbikarnum. 

Nánari úrslit hér https://triathlon.org/results/result/2022_world_triathlon_cup_pontevedra/550677


Hákon Hrafn Sigurðsson

Síðast breytt þann 24. July 2022 kl: 18:08 af Hákon Hrafn Sigurðsson