Guðlaug Edda í 28. sæti í heimsmeistaramótaröðinni í þríþraut

Guðlaug Edda í 28. sæti í heimsmeistaramótaröðinni í þríþraut

7 November 2022 00:00

Guðlaug Edda Hannesdóttir keppti í gær í heimsmeistaramótaröðinni  í þríþraut á Bermúda. 

Keppt var í Ólympískri þraut (1500m sjósund, 40km hjól og 10km hlaup).  Þetta er sterkasta þríþrautarmótaröðin og sú eina sem gefur stig til að komast inn á lokamót Alþjóðaþríþrautarsambandsins og var jafnframt síðasta stigakeppnin fyrir lokamótið sem fer fram í Abu Dhabi 26. nóvember. Guðlaugu var raðað númer  40 af 47 konum sem hófu keppni. Hún var númer 30 eftir sundið og náði svo góðum hjólalegg í erfiðri hjólabraut og vann sig upp um 8 sæti. Sú barátta kostaði mikla orku og hún gaf aðeins eftir í hlaupinu og endaði í 28. sæti sem er næst besti árangur hennar í heimsmeistaramótaröðinni þegar horft er á sæti en vegna styrkleika mótsins þá gefur þessi árangur henni 122 stig á úrtakslistanum fyrir Ólympíuleikana 2024 og það eru flest stig sem hún hefur hlotið fyrir keppni frá upphafi.

Sigurvegari varð heimakonan og ólympíumeistarinn Flora Duffy. Taylor Knibb frá Bandaríkjunum varð 2. en hún varð heimsmeistari í hálfum járnmanni í síðasta mánuði. Beth Potter frá Bretlandi varð í 3. sæti.

Nánari úrslit hér https://triathlon.org/results/result/2022_world_triathlon_championship_series_bermuda/550765


Hákon Hrafn Sigurðsson