
11 June 2022 17:00
Guðlaug Edda Hannesdóttir keppti í dag í heimsmeistaramótaröðinni í þríþraut í Leeds
Keppt var í sprettþraut (750m vatnasund, 20km hjól og 5km hlaup). Einungis 55 sterkustu þríþrautarkonur komast inn á hvert mót í heimsmeistaramótaröðinni og Guðlaug Edda komst inn á síðustu stundu. Hún startaði því yst á bryggjunni í sundinu og þurfti að hafa mikið fyrir því að vinna sig upp í gegnum hópinn. Hún var númer 45 eftir sundið og við tók mikil barátta á hjólinu þar sem hún náði að vinna sig upp um nokkur sæti og byrjaði hlaupið í sæti númer 37. Guðlaug Edda átti síðan sitt besta hlaup í þríþraut og hljóp kílómetrana fimm á 17:30 og vann sig upp í 31. sæti. Sigurvegari varð Cassandre Beaugrand frá Frakklandi á tímanum 59:03 og heimakonurnar Georgia Taylor-Brown og Sophie Coldwell urðu í 2. og 3. sæti.
Þetta er aðeins í fjórða skipti sem Guðlaug Edda keppir í heimsmeistaramótaröðinni og hún færist upp heimslistann með þessum árangri. Þetta var einnig annað mótið sem telur til stiga á nýjum úrtökulista fyrir Ólympíuleikana og Guðlaug Edda hefur fengið stig úr báðum mótum og stendur vel á listanum.
Hákon Hrafn Sigurðsson