Guðlaug Edda númer 15 í Miyazaki

Guðlaug Edda númer 15 í Miyazaki

26 October 2019 14:00

Guðlaug Edda Hannesdóttir náði í nótt sínum langbesta árangri í ólympískri þríþraut þegar heimsbikarkeppnin í Miyazaki (Japan) fór fram.

Guðlaug Edda endaði í 15. sæti af 49 konum sem voru á ráslínu og fyrirfram var henni raðað númer 34 eftir styrkleika keppenda. Í ólympískri þraut eru syntir 1500m, hjólaðir 40km og 10km hlaupnir. 
Guðlaug átti frábært sund og kom 6. upp úr sjónum (19:08). Eftir skiptingu úr sundi yfir í hjól þá náðu þrjár konur smá forskoti og Guðlaug var í næsta hópi fyrir aftan ásamt 11 öðrum konum. Guðlaug var mjög sterk í þessum hópi og hjólaði oft fremst og dró hópinn áfram sem varð til þess að þær náðu þessum þremur sem höfðu verið fremst. Í næsta hópi fyrir aftan þær voru svo þrjár mjög sterkar þríþrautarkonur sem ætluðu sér sigurinn (Ai Ueda, Claire Michel og Nicola Spirig) og þær náðu að hjóla uppi fremsta hóp um miðja keppni. Þá voru þær orðnar 21 að hjóla saman og hjóluðu þannig inn á skiptisvæði fyrir hlaup. Guðlaug átti svo frábært hlaup (37:46) og endaði eins og áður sagði í 15. sæti á tímanum 2klst, 2 mínútur og 41 sekúnda sem er frábær árangur og mun flytja hana vel upp úrtökulistann fyrir Ólympíuleikana í Tokyo 2020. Sigurvegari varð heimakonan Ai Ueda á tímanum 1klst, 59 mínútur og 32 sekúndur.


Hákon Hrafn Sigurðsson