Heiðmerkurtvíþraut endurvakin

Heiðmerkurtvíþraut endurvakin

1 November 2021 04:00

Hin sögufræga Heiðmerkurtvíþraut fór fram um helgina í fyrsta skipti eftir 5 ára hlé.

Keppnin fór fyrst fram fyrir 16 árum og var haldin að vori og hausti í 10 ár. Fyrstu árin voru Burkni Helgason og Eva Skarpaas sigursæl í þessari þraut en hún var helst þekkt fyrir það að bæði hlaupar og hjólreiðafólk mætti gjarnan í keppnina og keppti við þríþrautarfólk. Þannig var það einnig núna þegar fremstu hjólarar okkar mættu til leiks, þau Ágústa Edda, Eyjólfur Guðgeirsson og Jón Arnar Óskarsson. Í þessari tvíþraut eru fyrst hlaupnir tveir hringir (3,8km) á stígum í Heiðmörk og svo skipt yfir í tvo hjólahringi (14,5km) á Heiðmerkurvegi og Strípsvegi og svo endað með því að hlaupa sömu tvo haupahringi og í upphafi. Aðstæður voru mjög góðar um helgina og góðir tímar náðust í báðum flokkum. Í kvennaflokki varð Ágústa Edda sigurvegari á tímanum 66:55, Margrét Pálsdóttir varð önnur um 8 mínútum á eftir Ágústu og Katrín Lilja Sigurðardóttir varð í 3. sæti rétt á eftir Margréti. Í karlaflokki sigraði Hákon Hrafn Sigurðsson á tímanum 59:05, Jón Arnar Óskarsson varð annar á tímanum 61:35 og Steindór Eiríksson varð þriðji á tímanum 62:20. Brautarmetin stóðu áfram en þau eiga Hákon Hrafn frá hausti 2014, 56:57, og Birnar Björnsdóttir frá vori 2012, 64:35. Það er frábært að sjá Þríþrautardeild Ægis endurvekja þessa keppni og öll umgjörð var til fyrirmyndar eins og við var að búast hjá þessu öfluga þríþrautarfélagi. 

 
 
 

Hákon Hrafn Sigurðsson

Síðast breytt þann 2. November 2021 kl: 10:14 af Hákon Hrafn Sigurðsson