26 August 2018 20:00
Ofursprettþraut Nettó fór fram um helgina í Reykjanesbæ
Ofursprettþraut Nettó fór fram um helgina í Reykjanesbæ við frábærar aðstæður en mótið var haldð af þríþrautardeild UMFN og var jafnframt Íslandsmeistaramótið í ofursprettþraut.
Í þessari ofursprettþraut eru syntir 400m í sundlaug, hjólaðir 10km (4x2,5km hringur) og endað á 2,5km hlaupi. Um 40 keppendur voru mættir til leiks og í fyrsta skipti í þríþrautarkeppni hérlendis voru konur fleiri en karlar.
Í kvennaflokki var það Birna Íris sem leiddi eftir sundið en Rannveig Anna náði henni á skiptisvæðinu þegar hjólið byrjaði og hélt þeirri forystu allt til loka en hún kom í mark á tímanum 38:05. Birna Íris Jónsdóttir varð í 2. sæti og Kristín Vala Matthíasdóttir í 3. sæti en þær eru allar úr Breiðabliki.
Í karlaflokki leiddi Gylfi Örn Gylfason keppnina eftir sundið en Hákon Hrafn Sigurðsson úr Breiðabliki náði honum á fyrsta hring á hjólinu og hélt þeirri forystu til loka og kom í mark á tímanum 32:22. Í öðru sæti varð Bjarki Freyr Rúnarsson og Torben Gregersen í 3. sæti en þeir eru báðir úr Sundfélagi Hafnarfjarðar.
Þetta var jafnframt síðasta bikarmót sumarsins þar sem lokaúrslit urðu þau að Sigurður Örn Ragnarsson og Rannveig Anna Guicharnaud, bæði úr Breiðabliki, urðu bikarmeistarar. Í öðru sæti urðu Hákon Hrafn Sigurðsson og Birna Íris Jónsdóttir, einnig bæði úr Breiðaliki. Í þriðja sæti urðu Bjarki Freyr Rúnarsson úr Sundfélagi Hafnarfjarðar og Amanda Marie Ágústsdóttir úr Breiðabliki. Í heildarstigakeppni þríþrautarfélaga var það Breiðablik sem vann með nokkrum yfirburðum.
Hákon Jónsson
Síðast breytt þann 27. August 2018 kl: 23:59 af Hákon Jónsson