30 June 2018 05:00
Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir hlaut í vikunni styrktarsamning hjá Ólympíusamhjálpinni vegna undirbúnings fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.
Átta einstaklingar frá sex sérsamböndum ÍSÍ fengu þennan styrk að þessi sinni og því um mikinn heiður að ræða fyrir hana og þríþraut á Íslandi.
Um er að ræða mánaðarlegan styrk fyrir hvern styrkþega að upphæð 1.000 bandaríkjadali vegna kostnaðar við æfingar og keppnir.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands kallaði eftir tillögum frá sérsamböndum ÍSÍ og bárust umsóknir vegna 18 einstaklinga frá sjö sérsamböndum.
Allir þessir einstaklingar hafa það á stefnu sinni að ná lágmörkum og vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 og hafa hafið stífan og kostnaðarfrekan undirbúning vegna þessa. Styrktímabil hófst þann 1. maí 2018 og stendur fram að leikum, nái styrkþegi að tryggja sér þátttökurétt.
Heildarkostnaðaráætlun styrkþega fram að leikum er margföld þeirri upphæð sem styrkir Ólympíusamhjálparinnar og ÍSÍ nema, en lauslega áætlað má reikna með að árlegur kostnaður á hvern einstakling í fremstu röð í heiminum sé um 10 m.kr.
Árangur íslensks afreksíþróttafólks skiptir miklu máli, en á bak við árangurinn eru einstaklingar sem eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir íslenska æsku og þjóðfélagið í heild sinni. Til framtíðar er mikilvægt að hlúa enn betur að þessu fólki með því að gefa því tækifæri á að taka þátt í verðugum verkefnum og styðja við bakið á því með fræðslu og faglegri þekkingu sem og auknu fjármagni.
Stjórn Þríþrautarsambands Íslands er einstaklega þakklát Ólympíusamhjálpinni og ÍSÍ að hafa valið Guðlaugu Eddu sem styrkþega. Stjórnin hefur mikla trú á Guðlaugu Eddu og er þess fullviss að hún muni verða fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í þríþraut á Ólympíuleikunum í Tokyo árið 2020.
Guðlaug Edda skrifaði pistil á fésbókarsíðu sína eftir að hún fékk styrkinn. Hún vonar að hún geti verið öðrum góð fyrirmynd og hvatning til uppbyggingar barna- og unglingastarfs í þríþraut á Íslandi sem og þeim er stunda, sund, hjól og hlaup. Hún veit að hjarta hennar slær íþróttum og hún lifir fyrir þennan draum að komast á Ólympíuleikana í Tokyo 2020.
Hennar markmið er „Framför ekki fullkomnun“, sem verður hennar merki og hún hvetur alla til þess að fylgjast með sér, en hún er með fésbókarsíðuna edda@triathlon
Hákon Hrafn Sigurðsson