12 November 2021 18:43
Sameiginleg yfirlýsing um sátt í deilumáli
Á síðastliðnum árum hafa staðið yfir deilur milli þríþrautarmannanna Amöndu M. Ágústsdóttur og Diðriks Stefánssonar annars vegar og Þríþrautarsambands Íslands hins vegar. Hafa þessar deilur ratað fyrir dómstóla ÍSÍ, Héraðsdóm Reykjavíkur og Landsrétt. Deiluefnin hafa meðal annars snúið að því hvort afreksstefna Þríþrautarsambandsins sé óhóflega ströng og komi þannig í veg fyrir að efnilegt þríþrautarfólk nái að öðlast keppnisreynslu í keppnum á erlendri grundu. Í tengslum við þá deilu hafa samskipti milli aðila einkennst af átökum og ásökunum sem hafa haft áhrif á þríþrautarsamfélagið í heild sinni.
Við höfum í sameiningu ákveðið að sætta ólík sjónarmið okkar og ljúka þessum deilum og með því viljum við sameiginlega draga línu í sandinn og horfa til framtíðar. Það er sameiginlegur vilji okkar að vinna að framgangi þríþrautar á Íslandi og byggja upp þríþrautarsamfélag sem einkennist af samheldni, jákvæðri og skilvirkri samskiptamenningu og sterkum íþróttaanda.
Okkur þykir miður að umræða um deiluefnin, eins og hún hefur farið fram á samfélagsmiðlum og innan þríþrautarsamfélagsins, hafi valdið einstaka þríþrautarmönnum, skipuleggjendum og öðrum sem koma að íþróttinni vanlíðan og hugarangri. Deilan hefur stigmagnast fram úr hófi sem hefur haft í för með sér neikvæð áhrif á þríþrautarsamfélagið.
Með þessa sameiginlegu yfirlýsingu viljum leggja ágreiningsmál okkar til hliðar og hefja nýtt upphafi sem einkennist af sátt, samlyndi og stuðningi við ólík hlutverk okkar. Það er jafnframt von okkar að þríþrautarsamfélagið sýni okkur stuðning á þessum tímamótum og taki þátt í að byggja upp einingu og samheldni innan íþróttarinnar.
Hákon Jónsson