Sigurður og Katrín Íslandsmeistarar í Ólympískri þríþraut 2023

Sigurður og Katrín Íslandsmeistarar í Ólympískri þríþraut 2023

24 June 2023 19:00

Íslandsmeistaramótið í Ólympískri þríþraut fór fram í dag við ágætar aðstæður á Laugarvatni. Í þrautinni voru syntir tveir 750 metra hringir í Laugarvatni, hjólaðar tvær 20km umferðir á Laugarvatnsvegi og að loknum hlaupnir tveir 5km utanvega hringir við Laugarvatn.  Þetta var jafnframt 11. árið í röð þar sem keppt í þríþraut á Laugarvatni. 

Í kvennaflokki sigraði Katrín Pálsdóttir úr Sundfélagi Hafnarfjarðar á tímanum tveir tímar, 29 mínútur og 24 sekúndur og náði hún því að verja titil sinn frá því í fyrra.  Önnur varð Ewa Przybyla úr Breiðabliki á tímanum tveir tímar, 36 mínútur og 34 sekúndur. Sara Árnadóttir úr Sunfélaginu Ægi, varð 3. á tímanum tveir tímar, 37 mínútur og 47 sekúndur. Katrín var önnur eftir sundið en hjólaði síðan gríðarlega vel og náði öruggu forskoti fyrir hlaupið sem tryggði henni sigurinn þrátt fyrir að Ewa og Sara hafi náð betra hlaupi en Katrín.

Í karlaflokki sigraði Sigurður Örn Ragnarsson en hann kom í mark á tímanum tveir tímar, 1 mínúta og 9 sekúndur en þetta var 6. skiptið í röð sem Sigurður verður Íslandsmeistari í Ólympískri þríþraut.  Bjarni Jakob Gunnarsson kom 2. í mark á tímanum tveir tímar, 8 mínútur og 41 sekúnda og 3. varð Arkadiusz Przybyla á tímanum tveir tímar, 15 mínútur og 7 sekúndur en þeir keppa allir fyrir Breiðablik. Sigurður átti besta tíma í öllum greinum dagsins. Hann náði mjög góðu forskoti eftir sundið og svo bætti hann enn meira við það forskot í hjólinu og hlaupinu.

Í stigakeppni félaga sigraði Sundfélagið Ægir, Breiðablik varð í 2. sæti og Sundfélag Hafnarfjarðar í 3. sæti.


Hákon Hrafn Sigurðsson

Síðast breytt þann 24. June 2023 kl: 20:03 af Hákon Hrafn Sigurðsson