Sigurður Örn vann Ironman Barcelona

Sigurður Örn vann Ironman Barcelona

2 October 2022 00:00

Hin árlega járnmannskeppni í Barcelona (Ironman Barcelona) fór fram í dag.

Syntir voru 3,8km í sjónum fyrir utan Calella, því næst hjólað með ströndinni í átt að Barcelona og til baka og sú leið farin tvisvar, samtals 180km. Að lokum var svo hlaupin rúmlega 10km hringur fjórum sinnum til að ljúka þrautinni á maraþonhlaupi. 

Sigurður Örn Ragnarsson úr Breiðabliki gerði sér lítið fyrir og vann heildarkeppnina á tímanum 8 klukkutímar, 42 mínútur og 1 sekúnda og var rúmum sex mínútum á undan næsta manni, Spánverjanum Muñoza en 1610 karlar tóku þátt í keppninni að þessu sinni. Sigurður synti á tímanum 49:40, hjólaði á tímanum 4:30:10 og hljóp maraþonið á tímanum 3:14:15. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur sigrar heildarkeppni í Ironman og árangurinn veitir honum jafnframt þátttökurétt í sínum aldursflokki á heimsmeistaramótinu í Ironman sem fer fram á Hawaii í oktober á næsta ári. Þetta var fyrsta Ironman keppni Sigurðar en hann hefur keppt mikið í hálfum járnmanni áður og haft yfirburði í þríþrautarkeppnum á Íslandi og það verður spennandi að fylgjast með honum á heimsmeistaramótinu að ári. 


Hákon Hrafn Sigurðsson

Síðast breytt þann 2. October 2022 kl: 21:29 af Hákon Hrafn Sigurðsson