Tvenn verðlaun í Ironman Barcelona

Tvenn verðlaun í Ironman Barcelona

7 October 2021 00:00

Um síðustu helgi keppti góður hópur Íslendinga í hálfum og heilum Ironman á Spáni.

Tvær keppnir voru í gangi á sunnudaginn, hálfur járnmaður í Challenge Salou og svo bæði hálfur og heill í Ironman Barcelona (þar sem sundið fer fram í Calella). Íslendingar eiga góðar minningar þaðan en Geir Ómarsson setti besta tíma Íslendings þar fyrir fórum árum og það er sannarlega hægt að segja að keppnin um helgina hafi einnig verið eftirminnileg. Fyrst má nefna veðrið sem var ekki alveg það besta, eiginlega bara brjálað veður og hætt var við sundið í Salou og sundið var stytt verulega í Calella. Íslendingar eru hinsvegar vanir slíku og náðu frábærum árangri í báðum keppnum. Ber þar hæst að nefna að tvær þríþrautarkonur náðu í verðalun í Calella. Helen Ólafsdóttir (Ægir) gerði sér lítið fyrir og vann sinn flokk (50-54 ára) í hálfum járnmanni og varð 10. allra kvenna í aldursflokkum. Tími hennar var 4:50:52 og hún var nærri 4 mínútum á undan næstu konu í sínum aldursflokki. Hún náði því að tryggja sér sæti á lokamótinu hjá Ironman í hálfum járnmanni sem fer fram í Bandaríkjunum á næsta ári.

Hjördís Ýr Ólafsdóttir (SH) keppti í sínum fyrsta heila járnmanni (35-39) og náði þriðja sæti á tímanum 9:48:04 en hún hafði þá farið fram úr Katrínu Pálsdóttur í hlaupinu sem endaði í 4. sæti. Sannarlega frábær árangur hjá þeim í erfiðum aðstæðum á Spáni. 

Hákon Hrafn Sigurðsson

Síðast breytt þann 7. October 2021 kl: 21:03 af Hákon Hrafn Sigurðsson