Þríþrautarfólk ársins 2019

Þríþrautarfólk ársins 2019

16 December 2019 12:30

ÞRÍ hefur valið Guðlaug Eddu Hannesdóttur og Sigurð Örn Ragnarsson sem þríþrautarfólk ársins 2019

GUÐLAUG EDDA HANNESDÓTTIR
Guðlaug Edda (25 ára úr Breiðablik) er þríþrautarkona ársins 3. árið í röð. Hún hefur verið búsett í Danmörku síðastliðin þrjú ár og æft með danska þríþrautarlandsliðinu. Nýlega flutti hún aftur til Íslands og byrjaði að æfa undir leiðsögn Ian O'brien en hann var valinn þjálfari ársins af bandaríska þríþrautarsambandinu. Hún keppir í flokki atvinnumanna hjá Alþjóða þríþrautarsambandinu og er mjög nálægt því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum 2020. Guðlaug hefur náð mjög góðum árangri í ár en hún endaði í 14. sæti á Evrópameistaramótinu í þríþraut sem fram fór í Weert í Hollandi og náði sínum besta árangi í heimsbikarskeppninni þegar hún endaði í 15. sæti í Miyazaki í Japan. Einnig varð hún fyrst Íslendinga til að klára keppni í heimsúrvalsseríunni í þríþraut (WTS) en hún endaði í 26. sæti í keppni sem fram fór í Montreal í Kanada. Guðlaug hefur líka keppt í stigakeppnum á vegum Evrópska þríþrautarsambandsins með góðum árangri en hún komst meðal annars á verðlaunapall í sprettþraut í Malmö í Svíþjóð þar sem hún endaði í 3. sæti. Þá náði hún 2. sæti í Afríkubikarmóti sem fram fór í Dahkla, Marakkó í nóvember.

SIGURÐUR ÖRN RAGNARSSON
Sigurður Örn Ragnarsson (28 ára úr Breiðablik) er þríþrautarmaður ársins 2. árið í röð. Hann keppti í flokki atvinnumanna í Ironman mótaröðinni í hálfum járnkarli og náði bestum árangri Íslendings frá upphafi í þeirri mótaröð þegar hann náði 8. sæti í Finnlandi. Sigurður varð Íslandsmeistari í ofursprettþraut og í ólympískri þríþraut og bikarmeistari Þríþrautarsambandsins. Sigurður setti brautarmet í ofursprettþraut og sprettþraut auk þess að vinna öll bikarmót Þríþrautarsambandsins. Sigurður náði einnig góðum árangri í einstaka íþróttum innan þríþrautarinnar t.d. hafnaði í öðru sæti í heildina í hálfu maraþoni Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka.


Hákon Hrafn Sigurðsson